BuiltWithNOF
Hjólferð Reykjavík Ísafjörður
og Flateyri 2005

 

Garpar á ferð.

 

 Formáli

Eftirfarandi er samantekt á undirbúningi og hjólferð undirritaðra Sveins og Guðbjarts frá Reykjavík til Ísafjarðar og Flateyrar 28. maí til 5. júní 2005. Stuðst er við efni af bloggsíðu ferðarinnar, úr dagbók sem skrifuð var í ferðinni og minnisatriðum. Í fjölmörg ár höfum við haft það fyrir líkamsrækt að fara í hjól- eða göngutúra á þriðjudögum og fimmtudögum. Það var í einum slíkum hjóltúr einhverntíman í nóvember 2004 sem við ákváðum að hjóla til Ísafjarðar vorið eftir. Fyrstu hugmyndir gengu út á að hjóla frá Reykjavík til Ísafjarðar og Flateyrar og fara ,,Vestur fyrir” í stað þess að fara Djúpið. Eftir smá vangaveltur ákváðum við að fara beinustu leið vestur vegna þess hve erfitt er að taka mikið af sumarfríinu í svona ,,egótrip”. Kannski förum við hina leiðina seinna, aldrei að vita.

 

Vonandi hafið þið gaman af ferðasögunni. Við höfðum að minnsta kosti mjög  gaman af ferðinni.

  

Reykjavík 9. apríl 2006

 

Sveinn Guðmundsson   Guðbjartur Sturluson


 

  

Undirbúningur ferðarinnar;

 Frá nóvember 2005 til loka maí 2006

 

Æfingaferð í maíÞað var í nóvember 2004 eins og fyrr sagði að við ákváðum að ,,skreppa” til Ísafjarðar og Flateyrar á hjólunum okkar og var stefnan sett á næstkomandi vor. Að vísu var þetta í hugum okkar meira en að skreppa því hvorugur okkar hafði áður farið í tveggja daga hjólferð og hvað þá 6-8 daga eins og við reiknuðum með að ferðin tæki.  Ástæðan fyrir því að hjóla þessa leið frekar en einhverja aðra var einfaldlega sú að ég er frá Ísafirði og Guðbjartur frá Flateyri. Við erum báðir fæddir á fyrri hluta síðustu aldar og þar sem við vissum ekki hvernig líkaminn myndi bregðast við þeim auknu æfingum sem framundan voru, ákváðum við að halda þessari ákvörðun fyrir okkur sjálfa. Hvernig myndi t.d. bakið, axlirnar, hnén eða önnur liðamót taka þessu álagi?. Við höfum nefnilega aldrei verið miklir ,,sportistar”. Ef til vill myndum við þurfa að hætta við allt saman! Það var því best að bíða með yfirlýsingarnar þar til seinna. Þrátt fyrir það ákváðum við að láta konurnar vita af ákvörðun okkar en tókum af þeim loforð um að þær mættu alls engum segja frá þessu. Þær tóku þessu með sinni stóísku ró eins og við höfðum reiknað með. Að vísu varð maður var við augnagotur við og við eins og verið væri að athuga hvort það væri nú ekki örugglega allt í lagi með mann. En við héldum ótrauðir áfram.

Við vissum lítið hvað við vorum að fara út í, annað en það að menn höfðu farið þetta áður og lifað það af. Svo höfðu aðrir unnið mun meiri hetjudáðir. Farið yfir Grænlandsjökul og á Suðurpólinn ofl. Í byrjun janúar hittum við þá Magnús Björnsson og Skarphéðinn Óskarsson (makar vinkvenna Ásu) þar sem þeir voru að æfa sig á gönguskíðum á Rauðavatni. Þeir töluðu fjálglega um að þeir væru að fara í Vasagönguna (90km skíðaganga) og voru ekkert feimnir við að segja frá því. Það hjálpaði mikið að hitta svona hugrakka menn. Við vorum því nokkuð vissir um að við myndum klára þetta ef ekkert óvænt kæmi fyrir.

Við höfum báðir mjög gaman af allskonar græjum sem hafa komið að góðum notum á hjólunum sem og í ýmsum fjallaferðum.   Æfingaferð á MosfellsheiðiVið vonuðumst til að réttu græjurnar myndu hjálpa okkur að þjálfa okkur upp því við höfðum litla þekkingu á því sviði. Eftir miklar pælingar keyptum við Sigma púlsmæli og Garmin Forerunner 201 GPS tæki sem er sérstaklega hannað fyrir skokkara. Garmin tækið mælir m.a. vegalengdir, hraða, meðalhraða og hæðarpunkta með GPS tækninni. Þar sem ég var á leið til Miami í desember til að heimsækja Ásdísi dóttur mína en hún var að útskrifast sem rafmagnsverkfræðingur úr Miami Háskóla var því upplagt að kaupa græjurnar þar. Við fundum lítið af upplýsingum um þjálfun í hjólreiðum á bókasafninu og var því farið að leita að hjólabókum á  Amazon.com.  Þar leit best út  “The Complete book of Long distance cycling” og svo dúkkaði upp ein sem hét “ Cycling past 50”  og var hún látin fljóta með í pöntuninni þar sem við vorum báðir komnir nokkuð þar yfir. Þessar bækur fjölluðu að mestu um hvernig ætti að ná úthaldi til að geta hjólað 100 mílur í blóðspreng á einum sunnudagseftirmiðdegi, á hjóli með örmjóum dekkjum og ennþá mjórri hnakki. Við urðum því hálf rasssárir bara af lestrinum. En bækurnar ásamt græjunum hjálpaðu okkur mikið við að skipuleggja æfingarnar sem miðuðust við að ná úthaldi og geta viðhaldið því í 6 til 8 daga. 

Við  Nesjavelli á nýja hjólinuFjótlega í janúar kom í ljós að ég þurfti að lappa uppá hjólið mitt eða kaupa nýtt.  Ég var á 10 ára gömlu Mongoose fjallahjóli sem var orðið æði slitið og Guðbjartur á 20 ára gömlum DBS. Hann vildi nú lengi framan af meina að það væri ótrúlega gott og fullfært í slaginn. Einhverra hluta vegna var ég orðinn mjög hrifinn af Cannondale hjólum. Líklega vegna þess að ég sá mikið af þeim í hjólabúðum í Miami. Þar sem ég var ekki tilbúinn til þess að borga það sem uppsett var fyrir slíkt hjól hér fór ég að skoða á eBay  hvort ekki mætti finna góð notuð hjól þar. Fljótlega fann ég notað Cannondale F400 fjallahjól sem var staðsett í Utah og ákvað að bjóða í það til að prófa þessa innkaupatækni. Dollarinn var líka mjög hagstæður og fyrsta boð átti að vera  400 dollarar. Hingað komið yrði verðið uþb. 53.000 með VSK og öllu.  Ég lét Ásdísi bjóða í það fyrir mig og fékk það á 410 dollara.  Ég asnaðist að vísu til að láta senda það til þeirra í Miami og þaðan til Shop USA í Norfolk en hvað um það.  Þetta reyndist hið besta hjól með 27 gírum og dempara að framan en það sem mér fannst skipta mestu máli var hversu létt það var og hversu létt var að hjóla á því. Þessi frægðarför mín á netinu varð til þess að Guðbjartur fór að leita og fann hann fljótlega flott Cannondale Jekyl hjól sem var með dempurum bæði að framan og aftan. Hann ákvað að bjóða í það en ekki fyrr en á seinustu mínútunum þegar uppboðinu var að ljúka sem var á þriðjudegi kl. 21.30. Þann sama dag höfðum við skroppið í smá æfingarferð út á Seltjarnarnes og þurfti ég að koma við hjá tengdaforeldrum Ásdísar, vegna einhvers tölvumáls sem þurfti að redda. Að venju taka tölvumálin alltaf lengri tíma en maður reiknar með og  þurftum við að hjóla í blóðspreng af Nesinu og heim til Guðbjarts. og rétt náðum heim til hans fyrir 21.30. Kveikt var á tölvunni og náði hann að gera tilboð rétt fyrir lokun  og fékk hjólið á rúma 1000 dollara.

Við  Nesjavelli á nýja hjólinuHjólið mitt fékk ég í byrjun apríl en Guðbjartur fékk sitt ekki fyrr en viku áður en við lögðum af stað.

Til þess að styrkja okkur andlega fyrir ferðina og fá móralskan stuðning sóttum við um inngöngu í  Fjallahjólaklúbb Íslands og var það auðsótt. Þar hittum við margt ágætis fólk og fengum góðar leiðbeiningar. Fórum við þar m.a. á fræðsluerindi hjá æðstapresti íslenskra hjólamanna Magnúsi Bergs. Hann sagði að í löngum hjólaferðum væri mjög mikilvægt að nýta alla orku sem maður hefði meðferðis. Þannig nýtti hann t.d. soðið af kindabjúgunum í neskaffið og lagaði “bjúgnakaffi” en lét fylgja með að hann mælti ekki mæla sérstaklega með því.

Í lok apríl vorum við Guðbjartur búnir að hjóla uþb 1000km frá áramótum og vorum bara nokkuð ánægðir með okkur. Hvorki hafði þurft að skipta út liðum né limum á okkur á þeim tíma þannig að okkur fannst að þessir 500km til viðbótar ættu ekki að vera svo mikið mál. Við byrjuðum því að ía að fyrirætlunum okkar eftir páskana.

Æfingaprógrammið sem höfðum notað var að hjóla 25 til 40 km tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Alls ekki skemur en einn og hálfan tíma í hvert skipti og í hvaða veðri sem var. Leiðirnar sem við fórum oftast voru: Frá Vogahverfi rangsælis út í Gróttu,  Skerjafjörðinn og Fossvoginn heim ca 25km. Frá Vogahverfi upp Elliðaárdalinn, Geitháls, Hagavatn, Mosfellsbær og með ströndinni heim ca 35 km. Stundum slógum við þessum tveim leiðum saman til að fá samanburð við væntanlegar dagleiðir.

Þetta voru góðar æfingar þar sem landið sem við fórum um var mishæðótt og mjög misvindasamt. Við pældum mikið í niðurstöðum púlsmælisins og hvernig við gætum notað niðurstöðurnar til að ná æfingu sem gæfi okkur úthald í 6 til 8 daga samfellda hjólferð. Eftir lestur bókanna góðu þá ákváðum við að láta púlsmælinn stýra hraðanum og álaginu á okkur í ferðinni. Ákváðum við að ef púlsmælirinn sýndi meira en 130  slög per mínútu þá yrði álagið minnkað með því að fara í lægri gír á hjólinu og fara hægar. Í æfingunum fórum við oftast í mun hærri púls og héldum við okkur oft í 145-150 slög per mín. Æfingarnar sýndu okkur líka að við þyrftum að huga vel að því hvernig staða okkar á hjólinu væri þ.e. staða  hnakks og stýris. Til að forðast eymsli í handleggjum, herðum og baki þarf að huga vel að staðsetningu stýrisins og til að forðast eymsli í hnjám þarf staðsetning hnakksins sömuleiðis að vera rétt.  Til að komast að því hver besta staðan á hjólinu er þarf að hjóla oft og lengi því eins og gefur að skilja skiptir mjög miklu máli í löngum hjólferðum að manni líði vel á hjólinu.

Leiðin sem við ákváðum að fara vestur var; 1. áfangi; Langholts- og Vogahverfi, Hvalfjarðargöngin (ferjaðir þar í gegn) að Veitingastaðnum Baulunni.2. áfangi; Frá Baulunni yfir Bröttubrekku, um Dalina í Sælingsdal. 3. áfangi; Frá Sælingsdal í Bjarkarlund. 4. áfangi; Frá Bjarkarlundi yfir Þorskafjarðarheiði í Langadal (í sumarbústað Önnu Lóu og Gulla). 5. áfangi; Frá Langadal yfir Hestakleifina að Skarðseyri í Skötufirði (í sumarbústað Þórdísar og Dúdda) 6. áfangi; Frá Skarðseyri að Svarfhóli í Álftafirði (í sumarbústað Lilju og Braga)7. áfangi; Frá Svarfhóli til Ísafjarðar. 8. áfangi; Frá Ísafirði til Flateyrar.

Yak vagninn frá TaiwanÞó svo maður vilji helst hafa sem minnst af farangri í hjólferðum þá gefur það  auga leið að í lengri ferðum verður ekki hjá því komist. Í samráði við félaga okkar í Fjallahjólaklúbbnum ákváðum við að vera með farangurinn í þar til gerðum vagni sem er hengdur á afturöxulinn á hjólinu frekar en að vera með hann í töskum sem hengdar eru á sjálft hjólið.  Við vorum lengi að velta því fyrir okkur að hafa allan farangurinn á einum vagni og skiptast á að draga hann en ákváðum eftir prófanir að vera með sinn hvorn vagninn. Annar vagninn var tekinn á leigu hjá Fjallahjólaklúbbnum og var framleiddur í Taiwan en hinn var framleiddur í snarhasti á Langholtsvegi 40 tveim dögum fyrir brottför. Mikil listasmíð a la Guðbjartur. Ekkert ,,spýta og spýta í kross", heldur alvöru með dempara og allt. Var vagninn mikið langskip enda kölluðum við hann ,,Orminn langa”.

Ormurinn langi frá LangholtsvegiÞegar allt var tiltekið reiknaðist okkur til að farangurinn væri 25-30kg á hvorum vagni. Þar til viðbótar eru hjólin 10-12kg hvort fyrir sig.  Samtals þurftum við því að knýja 35-42kg plús okkar eigin þyngd. Við tókum með okkur allan viðlegubúnað tjald, svefnpoka, eldunargræjur og tvær forláta dýnur sem draga í sig loft þegar þeim er rúllað í sundur og svo auðvitað mat.  Eins og oft áður var vandamálið hjá mér að velja fatnað til fararinnar og endaði það eins og venjulega að ég tók of mikið með mér.

Dæmi um æfingar og skráningu þeirra úr Sigma púlsmæli

Dags

Start tími

Train time

Meðalt als HB

Max

Kcal

H-z %

F-z %

P-z %

27.1.2005

18:00

01:55:00

116

157

1342

35,0%

31,0%

10,0%

Hjóltúr með sjónum sundin, Eiðistorg-Elliðaárdalur uppað brú og heim

30.1.2005

11:22

02:14:00

112

179

1509

49,0%

21,0%

7,0%

Hjóltúr Kringum Úlfarsfell rangsælis

8.2.2005

18:43

01:00:00

132

160

806

5,0%

65,0%

24,0%

Gönguferð upp Elliðaárdal að efstu brú

30:4.2005

09:40

01:42:00

117

153

1207

69,0%

23,0%

1,0%

Réttsælis um Gróttu m. 30kg vagn

30:4:2005

11:23

00:25:00

77

90

Þetta endaði í 61km á 4klst og 20 mín.

5.5.2005

11:10

02:51:00

109

133

1870

77,0%

4,0%

0,0%

12,5 gr atenólól

10.5.2005

20:52

02:26:00

108

235

1591

34,0%

25,0%

3,0%

Ekki að marka max gildi 12,5 gr atenólól

11.5.2005

20:55

01:19:00

128

153

1014

33,0%

48,0%

16,0%

12,5 gr atenólól

 

Eftir að hafa notað Púlsmælinn og Forerunner 201 GPS búnaðinn í nokkrar vikur vorum við ekki alveg nógu ánægðir með útkomuna þar sem ekki var nein samtenging á milli upplýsinganna sem úr þeim komu. Við skráðum hjá okkur niðurstöður úr púlsmælinum eftir hverja æfingu en fannst vanta tengingu milli álags á hjartað og staðsetningar okkar á hverjum tíma. Við gátum t.d. ekki auðveldlega séð hvernig álagið var á hjartað þegar við fórum upp bratta brekku. Auðvitað var hægt að sjá þetta á meðan maður var í brekkunni en ekki er auðvelt Garmin Forerunner 301að vera sífellt að glápa á púlsmælinn. Þar fyrir utan vorum við oft að hjóla á kvöldin í myrkri sem gerði að við sáum lítið sem ekkert á búnaðinn. Svo voru Sigma púlsmælarnir líka að pirra okkur. Púlsmælirinn er í tveim hlutum sem eru hjartsláttarnemi og sjálfur mælirinn sem er  eins og armbandsúr. Neminn sem er strengdur yfir brjóstkassann sendir merkið þráðlaust í púlsmælinn. Vandamálið er að ef tveir aðilar eru með samskonar Sigma púlsmæla, eins og við vorum með þá ruglast mótakan ef við stöndum eða hjólum í innan við 1-1,5m frá hvor öðrum. Við fengum þess vegna oft rangar upplýsingar út úr Sigma mælinum. Þetta sést t.d. á töflunni hér fyrir framan á æfingu frá 10.05.2005 þar sem mælirinn sýnir max hjartslátt sem 235 slög á mínútu.

Stuttu áður en við lögðum af stað fundum við á vefnum nýja útfærslu af Garmin, sem var Garmin Forerunner 301 sem var eins og sá sem við áttum að öðru leiti en því að Forerunner 301 var með innbyggðum púlsmæli. Púlsmælirinn í 301 er í tveim hlutum eins og Sigma mælirinn en er með kóðun á þráðlausu sendingunni. Það kemur í veg fyrir að merkin ruglist á milli mæla þótt menn standi eða hjóli nálægt hvor öðrum. Einnig fylgdi með forrit til að lesa upplýsingarnar úr tækinu inn í tölvu sem gerði að við gátum séð upplýsingar um vegalengd, hæð á veginum og hjartslátt allt á sama grafinu.

Við keyptum nýju græjurnar með aðstoð Ásdísar og Dodda kærasta hennar sem voru að koma frá USA og fengum við þær daginn áður en við lögðum af stað. Við vorum því lítið búnir að prófa þær áður en við fórum af stað.

 

Svona líta  upplýsingarnar út úr Garmin Forerunner 301

 Til að gefa ættingjum og vinum möguleika á að fylgjast með hvernig gengi hjá okkur í ferðinni og einnig til að sinna sýningarþörfinni var sett var upp bloggsíðan www.rekis.blogspot.com. Þar sem við áttum ekki von á að komast í tölvu til að skrá ferðina jafnóðum fékk ég lánaða Qtek handtölvu hjá Nýherja sem er með innbyggðum GSM síma, myndavél, ritvinnsluforriti “og det hele”. Þar sem við vorum komnir með svo mikið af búnaði sem þurfti stöðuga endurhleðslu pantaði Guðbjartur litla ferða sólarrafstöð (af vefnum) en hún kom því miður ekki í tæka tíð. Við urðum því að treysta á hjálpsemi náungans til að hlaða græjurnar þ.e. Garmin Forerunner GPS tækin, GSM símana,  handtölvuna, iPod’inn og myndavélina.

Við ákváðum að brottfarardagurinn yrði laugardaginn 28. maí og stefnt að því að vera komnir til Ísafjarðar föstudaginn 3. júní. Fara daginn eftir til Flateyrar og síðan heim með flugi á sunnudeginum 5. júní.

Ástæðan fyrir því að þessi dagur var valinn var að báðir þurftum við að fara til Englands í júní. Ég og Ása þann fjórtánda og Guðbjartur og Gerða þann nítjánda. Við í barnapössun hjá Þórdísi og Józep og Guðbjartur og Gerða til að vera viðstödd giftingu Helga sonar síns.

Á myndinni hér til vinstri sést margnefnd Ásdís ásamt Dodda sínum, Þórdísi systur og Ásu að fá sér ,,smárétti” í hádeginu í Miami.

 Hálfum mánuði fyrir brottför fórum við báðir í rannsókn hjá Hjartavernd til þess að láta athuga hvort ekki væri ,,allt í lagi með okkur”. Það var ekki að því að spyrja, við fengum ,,fulla skoðun”.  Ég hafði að vísu verið að gera tilraunir með að hætta að taka lyfið ,,Atenólól” sem ég hef tekið í langan tíma við háum blóðþrýstingi og hjartatruflunum. Atenólól virkar þannig að það hefur hamlandi áhrif á hjartað þar sem skilaboð til heilans um þörf á hraðari hjartslætti vegna aukins álags skila sér seint og illa. ,,Það er eins og þú sért alltaf með handbremsuna á” sagði læknirinn. Ég hafði tekið eftir því að ég var alltaf mjög lengi ,,í gang” og snerpa og úthald ekki eins og vonast var eftir miðað við æfingar. Einnig hafði ég tekið eftir því að þegar ég gleymdi að taka lyfið var ég miklu sprækari en þegar ég tók það. Ég hafði því prófað að minnka skammtinn í smá tíma og síðan hætt alveg sem skilaði sér vel í æfingunum og var ég miklu sprækari. Fljótlega fór þó að bera á hjartsláttartruflunum að nýju sem gerði að ég fór að taka lyfið aftur tveim dögum fyrir ferðina. Var ég með bölvaðar hjartasláttartruflanir fyrstu tvo daga ferðarinnar sem löguðust svo aftur þegar töflurnar fóru að virka en úthaldið minnkaði að sama skapi.

Vikuna áður en við lögðum í hann æfðum við lítið. Vorum við fyrir löngu orðnir hundleiðir á því og vildum fara að komast af stað.

 

Hér sést leiðin sem við hjóluðum vestur. Brúnu punktarnir sýna áningarstaðina.


Minnislistinn yfir búnað sem þurfti að taka með var æði langur og þegar allt var til tekið þá fannst okkur hrúgan ansi stór. Það verður þó að taka fram að við vorum bara með eitt tjald, eldunarbúnað oþh.:


 

Grunnbúnaður

1 Tjald, hæla, súlur)

1 Svefnpoka, kodda

1 microfleese náttföt

1 Dýna

1 Prímus Gas , 2 gaskútar

1 Pottasett , hnífapör

1 Hitabrúsa

3 Vatnsbrúsar

1 Brauð, Flatbrauð

4 – 6 pakkar þurrmatur

5 pakka núðlur

5 Bollasúpur

1 Smjör, dós (í PeterPan plastdós) 

1 dós PeterPan Hnetusmjör

1 Kaffi, dós (í PeterPan plastdós) 

1 Kako, dós (í PeterPan plastdós) 

1 Kexpakki

1 Orkuköku/nurl (súkkulaði, hnetur, rúsínur)

Feitmeti (soðin og reykt bjúgu)

1 Verkfærasett (eða aðeins passandi lykla og sexkanta) 

1 Stóran sexkant fyrir sveifar (ef þær skyldu losna)

1 Bremsupúðasett

1 Slöngu (þú bætir ekki slöngu í ausandi rigningu)

1 Bætur (þú bætir svo slönguna á þurrum stað)

1 Teinalykil

1 Pumpu (hafðu hana á tryggum stað)

Varakeðjuhlekki  (svona 5-8 hlekki)

Varakeðja

4 Varaskrúfur

1 Gírvír

1 Bremsuvír

1 Goretexúlpa

1 Goretexbuxur

1 Buxur

1 Góður  jakki

1 síðar lycra buxur

Nærbuxur

1 sundskýlu

3 Sokkapör

1 Ullasokka (gott að sofa í þeim)

2 Stuttbuxur með rassbót

1 Bol/peysu m. ermum

1 Hjólaskór

1 Grifflur

1 Vettlinga

1 Stýrishanskar

1 Trefill – Buff hálsklútur

1 Húfu. (sofðu með hana á höfðinu, )

1 Handklæði (Ath. Bómullarbleyju, þornar fyrr!)

Vasahnífur

1 Kveikjara (blautar eldspýtur eru ónothæfar)

1 GPS Forerunner + hleðslutæki

Heart Rate Monitor

Rafhlöður

5 Kort 1: 250.000

Ólar (til að festa farangur á bögglabera)

Plastdúkur t.d. 1x1metra (gæti reynst vel í fortjaldið á blautt gras eða sandi) 

2 Eyrnatappa

Tannbursta /tannkrem

Plástur

Handáburður/Sjampó/sápa

Lyf/ Íbúfen/Strepsils

Naglaskæri/nál og tvinni

Varasalvi

GSM síma + hleðslutæki

Klósettpappír (gleymdir þú honum ekki síðast?)

Myndavél + minniskubba

Ipod

 

[Tómstund.net] [Fjölskyldan] [Ferðalög] [Vefsíður] [GPS dótakassinn]