BuiltWithNOF
Hjólað frá Reykjavík til Ísafjarðar
og Flateyrar

 

Áfangi VIII;

Ísafjörður – Bjarnadalur - Flateyri

Laugardagurinn 4-06-2005

Á Breiðadalsheiði (620m) Ísafjörður í baksýn

Við vöknuðum frekar seint þennan seinasta hjóladag ferðarinnar. Ég ætlaði ekki að minnast á veðrið þar sem mér finnst það orðið hálf pínlegt að vera stöðugt að segja frá sama fína veðrinu áttunda daginn í röð. Alla leiðina frá Reykjavík var sem sagt engin tilbreyting í veðrinu svo ég held ég segi ekkert meira um það hér eftir. Áður en við lögðum af stað til Flateyrar renndum við til Grétu systur Guðbjarts en hún hafði boðið okkur í morgunmat.  Í dag er ferðinni sem sagt heitið til Flateyrar með smá krók, sem er að koma við á Kirkjubóli í Bjarnadal.  Í stað þess að láta Magna skutla okkur í gegnum göngin ákváðum við að fara gömlu leiðina þ.e. yfir Breiðadalsheiði. Vorum við léttir á okkur þar sem við skildum vagnana eftir á Seljalandi hjá Magna. Á árunum kringum 1970 vann ég við að ryðja snjóinn á breiðadalsheiði á jarðýtunni hans Sigga frænda þá var oft ótrúlega mikill snjór.  Í Kinninni svokölluðu var eitt smá snjóhaft sem við þurftum að fara yfir en annars mjög lítill snjór.

Það var eitthvað annað þegar foreldrar Guðbjarts, Sturla og Guðjóna voru á ferð í Kinninni haustið ’41. Þau komu á bíl frá Flateyri og ætluðu á Ísafjörð til að láta Sýslumanninn Torfa Hjartarson pússa sig saman. Þau höfðu ekki meiri trú á því að það væri fært en svo að þau höfðu beðið sýslumanninn að koma á móti þeim ef það væri ófært. Það fannst Torfa vera það minnsta sem hann gæti gert fyrir vin sinn hann Sturlu. Ekki komst bíllinn nema rétt upp í Kinnina og þar beið Torfi. Hafði klofað yfir ófærðina á móti þeim.  Þarna á háheiðinni fór fram gifting með pomp og prakt eða eins og það getur verið best við slíkar aðstæður. Guðbjartur var ekki alveg klár hvar þetta hafði verið nákvæmlega en tilfinningin vísaði honum á staðinn.

Giftingarstaður foreldra Guðbjarts

 Gaman var að fara gömlu leiðina niður í Önundarfjörðinn og fórum við ,,Skógarbrekkurnar” þar sem við fundum þær.

Þegar við komum niður í Önundarfjörð hjóluðum við yfir fjörðinn í átt að Kirkjubóli. Þar hafði Guðbjartur verið í sveit í sex sumur hjá frændfólki sínu. Á Kirkjubóli var í kringum 1950-1952 tekin ein af merkari heimildarkvikmyndum um gamla búskaparhætti á Íslandi. Kvikmyndin sem Ósvaldur Knutsen tók hét ,,Fráfærur á Íslandi”, og var aðalleikarinn í karlhlutverki enginn annar en Guðbjartur Sturluson þá 8 eða 10 ára gamall.  Mig minnir að Guðbjartur hafi sagt að allir hinir ,,leikararnir” hafi verið rollur og lömb. Á Kirkjubóli er nú rekið gistiheimili yfir sumartímann en enginn búskapur er þarna lengur. Ég man eftir því að hafa nokkrum sinnum komið á Kirkjuból með pabba þegar hann var að heimsækja vin sinn og flokksbróður Guðmund Inga Kristjánsson skáld og bónda. Ábúendur á Kirkjubóli núna eru ættingjar Guðbjarts og var verið að setja niður þennan flotta tré hitapott við húsið þegar við renndum í hlað. Að góðum sið tóku ábúendur vel á móti frænda sínum og meðreiðarsveini hans og var okkur boðið í kaffi og þetta fína meðlæti

Á hlaðinu á Kirkjubóli ásamt ábúendum

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir stutt stopp á Kirkjubóli hjóluðum við til baka og út á Flateyri. Á Flateyri eiga  Guðbjartur og systkini hans, Gréta og Ebbi ágætis hús sem þau erfðu eftir foreldra sína og nota það sem sumarhús. Þar puntuðum við okkur og fórum í grillveislu sem Eiríkur Finnur og frú höfðu boðið okkur í daginn áður. Þar var tekið vel á móti okkur með góðum mat og víni og enduðum við í svaka partýi enda sjómannadagurinn. Hittum við þar konu Einars Odds og fórum með henni og fleirum á ball í félagsheimilinu. Sú samkoma minnti mig á gamla tíma og fannst mér lítið hafa breytst síðan maður var uppá sitt besta hérna í den. Fylgdum við svo frúnni heim á eftir eins og sannir sjéntilmenn og sátum þar og spjölluðum langt fram eftir nóttu. Vorum við ekki komnir í bólið fyrr en kl 5 um morguninn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Í kvöldmat hjá Eiríki Finni og frú

 

 

 

 

 

 Áfangi  IX; Flateyri - Ísafjörður - Reykjavík Sunnudagurinn 5-06-2005

Það var enginn geislandi hressleiki á okkur þegar við vöknuðum um tíu leitið um morguninn og vorum við hálf dasaðir. Okkur kom saman um að líklega hefðum við drukkið aðeins of mikið og verið aðeins of lengi að. Móttökurnar og matarboðið hjá Eiríki Finni og frú hafði verið mjög flott og partýið á eftir mjög skemmtilegt. Við höfðum alveg gleymt að hugsa til þess deginum áður að við þyrftum eitthvað að borða um morguninn. Til að seðja sárasta hungrið átum við sitt hvort Prins Pólóið og drukkum vatn með.

Magni kom og náði svo í okkur um kl. 14 og skutlaði okkur til baka til Ísafjarðar og gerðum við hjólin og vagnana klára til flutnings suður á túninu á Seljalandi. Við höfðum samið um það í föstudagspartýinu að við fengjum frían flutning fyrir hjólin suður með Samskip. Síðan fórum við og vorum viðstaddir þegar Fauinn báturinn hans Magna var dreginn af Lödunni frá Netagerðinni og inn í fjörð og gerður klár til sjósetningar.

Flugum við svo suður seinni partinn og fannst okkur sú ferð vera auðveld og taka stuttan tíma miðað við ferðina vestur. Þökkum við Magna kærlega fyrir alla aðstoðina og gestrisnina.


 

 

Lokaorð

Þegar litið er til baka þá er ekki vafi á  að þessi ferð og undirbúningur hennar líður seint úr minni. Margir hafa spurt hvort ferðin hafi ekki verið erfið en svarið er alltaf það sama að hún hafi verið skemmtileg. Á meðan á þjálfuninni stóð þá fór maður ósjálfrátt mörgum sinnum yfir leiðina vestur í huganum og sá fyrir sér allar hæðir og lægðir. Allar vangavelturnar um hvernig við ættum að þjálfa okkur, hvað við ættum að taka með og hversu langt við ættum að hjóla hvern dag gáfu ferðinni líka aukið gildi.  Vissulega vorum við aumir í botnstykkinu á köflum og þurftum þess vegna að pústa vel en við vorum vel undir ferðina búnir bæði andlega og líkamlega. Við vorum líka ótrúlega heppnir með veðrið og allan aðbúnað þar sem við fengum inni og viljum við endurtaka þakklæti okkar til allra sem aðstoðuðu okkur meðan á ferðinni stóð.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

[Tómstund.net] [Fjölskyldan] [Ferðalög] [Vefsíður] [GPS dótakassinn]