BuiltWithNOF
Hjólað frá Reykjavík til Ísafjarðar
og Flateyrar

 

Áfangi VII;

 Svarfhóll – Ísafjörður

Föstudagurinn 3-06-2005

 

Við höfum verið ótrúlega heppnir með veðrið hingað til og ekki var veðrið neitt öðruvísi þegar við vöknuðum. Þetta fína veður eins og vanalega. Höfum við ekki fengið á okkur nema í mesta lagi 10-12 regndropa suður í Bröttubrekku. Við höfum verið í stuttbuxum og einum bol (innan undir eiturgrængula sjálflýsandi vestinu) nánast alla leiðina.

Ótrúleg tilfinning var að hjóla frá Svarfhóli um kl 11 og vita að  einungis væru 30 km eftir af ferðinni til Ísafjarðar. Ég var orðinn mjög slæmur af sólbruna á kálfunum en þar sem ekki hafði verið gert ráð fyrir því sólbruna vandamáli í ferðinni höfðum við ekki tekið með okkur neina sólarvörn.   Við stoppuðum því í Kaupfélaginu þar sem ég keypti mér sólarvörn sem ég bar strax á mig. Í Súðavík hringdi ég í Magna bróðir en hann var aðalreddari okkar á Ísafirði og í raun í ferðinni. Hannætlaði að smala móttökunefndinni saman á Ísafirði nánar tiltekið á Silfurtorgi kl. 15.00

Guðbjartur kíkti í heimsókn

Í Súðavík notaði Guðbjartur tækifærið og bankaði uppá hjá öldnum frænda sínum, Sigurði Kristjánssyni (bræðrasynir) sem ætlaði ekki að þekkja hann fúlskeggjaðan  og með hjálminn á hausnum. Við stoppuðum stutt í Súðavík enda komin pressa á okkur að vera komnir til Ísafjarðar kl. 15.00. Þegar við komum að gatnamótunum að Ísafjarðarflugvelli mættum við rútu fullri af fólki og tókum við eftir að fararstjórinn sagði eitthvað við farþeganna og benti á okkur og klöppuðu þeir allir fyrir okkur þegar við mættumst. Fannst okkur það mjög skemmtilegt og gladdi okkur mikið.

 

Í Arnardal. Ísafjörður í baksýn

Þar sem við vorum á undan áætlun stoppuðum við í Netagerðinni hjá Magna og var okkur boðið uppá kaffi. Vorum við síðan mættir á Silfurtorgið á mínútunni kl. 15.00 Þar tók á móti okkur fullt af góðu fólki;  Magni og Svana, Þórdís, Örn Ingólfs, Eiríkur Finnur, Einar Oddur ofl ásamt Halldóri Sveinbjarnar frá BB sem kom og tók myndir.

Einar Oddur og Eiríkur Finnur sem eru náfrændur Guðbjarts buðu okkur í mat á Hótelinu og var það þegið með þökkum. Ótrúleg matarlist sem maður hefur.

Eftir matinn hjóluðum við í Hafnarbúðina hjá Önnu Lóu og gallaði ég mig upp þar sem ég hafði ekki tekið nein auka föt með mér.

Á Silfurtorgi

Þar náði Magni í okkur og fórum við í heitapottinn hjá honum á Seljalandi, alveg meiriháttar. Síðan skutlaði hann okkur heim til Önnu Lóu og Gulla. Höfðum við húsið út af fyrir okkur þar sem þau voru í bústaðnum í Langadal yfir helgina.

Við vorum svo heppnir að um kvöldið var Samskip með veislu fyrir helstu viðskiptavini sína á Hótel Ísafirði og gat Magni reddað okkur boðsmiða.  Hver getur neitað slíku kosta boði? Í partýinu var þó nokkuð af fólki sem ég kannaðist við og var gaman að hitta. Þar fann Guðbjartur líka ættartengsl við nánast hvert borð svo ég held að honum hafi ekki leiðst mikið heldur. Alveg ágætis partý skemmtilegt fólk og góður matur. En við vorum ekki lengi í þessu ágæta boði þar sem við ætluðum að hjóla til Flatreyrar daginn eftir.

             Þeir frændur Einar Oddur og Guðbjartur.                      

  

 

 

 

 

 

                                                           

 Margnefndur Magni bróðir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                                              

 

[Tómstund.net] [Fjölskyldan] [Ferðalög] [Vefsíður] [GPS dótakassinn]